Vilt þú taka þátt í að skapa tónlistarhátíð í Reykjavík í sumar? Íslenska Schumannfélagið stendur fyrir sínum fyrsta viðburði í Reykjavík í sumar og leitar að tónlistarfólki til samstarfs. Tónleikar verða skipulagðir í helstu tónleikasölum höfuðborgarsvæðisins: Hörpu, Salnum, Sigurjónssafni og Hannesarholti. Opið verður fyrir umsóknir til 31. mars 2021.

Íslenska Schumannfélagið leggur áherslu á að viðhalda ákveðnum hefðum  sem Schumannhjónin lögðu mikla vinnu í á sínum tíma: að styðja við nýja samtímalist og unga listamenn sem eiga framtíðina fyrir sér. Einnig voru þau dugleg að kynna tónlist eldri meistara. Stefna Schumannfélagsins er að styðja við framúrskarandi unga flytjendur og tónskáld ásamt því að flytja og miðla þekkingu um tónlist og líf Schumannshjóna og þeirra sem þau tengdust. Tónlistarhátíðin mun því leggja áherslu á að sýna það besta úr öllum áttum, meistaraverk forvera klassískrar tónlistar ásamt snillingum framtíðarinnar.

Hægt er að sækja um sem:

  • Flytjandi/flytjendur með hluta úr efnisskrá eða heila efnisskrá
  • Tónskáld með tónverk til flutnings
  • Tónlistarmaður með áhugaverðar hugmyndir


Í umsókn skal koma fram:

  • CV
  • Upplýsingar um feril flytjanda/tónskálds/tónlistarmanns
  • Greinargóð lýsing á verki, verkum, hugmynd eða efnisskrá
  • Nótur að frumsömdum verkum og/eða upptökur
  • Myndupptökur af flytjendum

Niðurstöður um hvaða verkefni verða valin verða tilkynntar eigi síður en mánuði eftir að umsóknarfresti lýkur. Við mat umsókna verður tekið mið af hæfni umækjenda og hugmyndum þeirra, en einnig verður heildstæðni dagskrár hátíðarinnar mikilvægur þáttur.

Hátíðin er styrkt af tónlistarsjóðnum Ýli.